Útskrift í matvælabrúnni hjá HfSu

Nýlega voru útskrifaðir nemendur í nýju starfstengdu námi í matvælagreinum við Háskólafélag Suðurlands, sem hefur meginaðsetur sitt á Selfossi.

Háskólafélag Suðurlands og Matís settu á fót diplómanám í matvælaiðnaði sem hlaut nafnið Matvælabrúin – nýsköpun og stjórnun. Undirbúningur var í samvinnu við öflug matvælafyrirtæki þar sem markmiðið hefur verið að uppfylla þarfir greinanna og skipuleggja eftir þeirra óskum. M.a. eru þar matvælafyrirtæki á starfsviði Starfsafls þ.e. í Hveragerði og Þorlákshöfn.

Námið er bæði ætlað starfsmönnum í matvælafyrirtækjum sem vilja auka hæfni sína og möguleika til frama í starfi og þeim sem hafa áhuga á að fá menntun og þjálfun til að eiga góða möguleika á starfi í matvælageiranum. Námið getur einnig verið mikilvægt skref fyrir þá sem hyggja á frekara nám í matvælatengdum greinum í framtíðinni.

Matvælabrúin er tveggja anna nám sem gefur 18 ECVET einingar og lýkur með sérstakri viðurkenningu frá Háskólafélagi Suðurlands. Í náminu er fléttað saman bóklegri kennslu ásamt vistun í fyrirtækjum þar sem unnið er með raunhæf verkefni og lýkur með lokaverkefni þar sem nemendur velja raunhæft viðfangsefni. Í Matvælabrúnni er lögð áhersla á nýsköpun og byggt á þeim aðferðum og kenningum sem settar hafa verið fram að undanförnu í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Í bóklega þættinum eru kennd nýsköpun í matvælafræðum, markaðsfræði matvæla, stjórnun og samskipti, flutningatækni og vörustjórnun ásamt matvælafræði I og II.

Gert er ráð fyrir nýjum hópi nemenda á hausti komanda.

Starfsafl óskar nemendum og aðstandendum námsins til hamingju með áfangann!20150504_151355Frá útskriftinni, kennarar í náminu, þau Ingunn Jónsdóttir og Hrafnkell Guðnason, sitthvoru megin við útskriftarnemendur.