Undirritaður samningur um sex hæfnigreiningar

Í gær, þriðjudaginn 10. apríl 2018, undirrituðu Starfsafl og Efling stéttafélag samning við Mími símenntun um hæfnigreiningu sex starfa.

Frammistaða starfsfólks er grundvöllur árangurs og frammistaða byggist bæði á því að starfsfólk geti gert það sem ætlast er til og vilji gera það. Hæfnigreining starfa felst í að kortleggja og skilgreina þá hæfni sem mikilvægt er að starfsmaður búi yfir til að árangur náist í starfi. Þess utan geta hæfnigreiningar starfa nýst á margvíslegan máta, s.s:

  • Grunnur fyrir gerð námsefnis – og námsbrauta.
  • Við skipulag þjálfunar og gerð fræðsluáætlana.
  • Við gerð starfsþróunarstefnu og starfsþróunaráætlana.
  • Við starfsmannaval og ráðningar.
  • Við gerð starfslýsinga.
  • Sem viðmið um frammistöðu í starfi sem nota má í frammistöðumati.

Við hæfnigreiningarnar er notuð aðferð samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem byggir á efni frá kanadíska ráðgjafafyrirtækinu Human Resource System Group.

Þau störf sem um er að ræða eru sbr. eftirfarandi:

  1. Almenn störf og vaktstjórn á skyndibitastöðum ( 2. störf)
  2. Hópferðabílstjórar sem fara með vaktstjórn
  3. Öryggis- og dyraverðir (2 störf)
  4. Smur og dekkjaþjónusta

Verklok eru eigi síðar en 20. janúar 2019 og verða þá greiningarnar aðgengilegar öllum sem áhuga hafa til notkunar.

Myndin er fengin hér / Freepik