Starfsafl styrkir námskeið um atvinnuleit

Eitt brýnasta verkefni verkalýðsfélaga á tímum sem þessum, þar sem atvinnulífið er nánast lamað og stór hluti félagsmanna án atvinnu, er að mæta óskum félagsmanna um stuðning í atvinnuleit. Með hliðsjón af því hefur Mímir símenntun, að beiðni og í samvinnu við Eflingu stéttafélag, skipulagt fjögur styttri námskeið fyrir félagsmenn um atvinnuleit undir yfirskriftinni Aftur til vinnu (e. Back to work). Markmið þeirra er að meðal annars að  kenna gerð færnimöppu, að útbúa skrifleg gögn eins og ferilskrá, skipuleggja markvissa atvinnuleit og nýta sér tölvutækni við leitina að nýju starfi.

Stjórn Starfsafls hefur samþykkt að styrkja þróunarhluta verkefnisins um 90% af kostnaði auk þess kostnaðar sem til fellur vegna þýðingar á námsefninu.

Í því felst að greitt verður 90% fyrir kennslu allra námskeiðshluta, fjóra talsins, einu sinni á íslensku og einu sinni á ensku, fyrir allt að 112 nemendur.

Þátttakendur greiða 10% af námskeiðskostnaði við skráningu.

Námskeiðin verða opin öllum félagsmönnum Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Nánari upplýsingar veitir Mímir Símenntun.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls. Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

Myndin með fréttinni er fengin hér