Starfsafl á mannauðsdeginum

bas-24Mannauðsdagur Flóru, félags mannauðsstjóra, hefur með ári hverju vaxið og dafnað og er nú orðinn einn stærsti viðburður í greininni.  Í ár verður Starfsafl í fyrsta sinn með kynningu á sinni starfsemi á mannauðsdeginum og er það verulega ánægjulegt að fá að taka þátt í þessum metnaðarfulla degi.  Þá verður jafnframt formaður Starfsafls og fræðslustjóri Securitas, Hlíf Böðvarsdóttir, með erindi um samspil stjórnunar og fræðslumenningar
 
Í auglýsingu vegna mannauðsdagsins segir:  Yfirskrift mannauðsdagsins í ár er „Samspil mannauðs og stjórnunar“, en á ráðstefnunni verður fjallað um hlutverk mannauðsdeilda í skipulagsheildum og samband þeirra við yfirstjórnir. Efni ráðstefnunnar höfðar til stjórnenda, mannauðsstjóra, mannauðsérfræðinga, ráðgjafa í mannauðsmálum og fræðimanna sem fást við stjórnun fyrirtækja og rannsóknir. Þá segir einnig að mannauðsdagurinn er vettvangur fyrir þá sem láta sig nútímalega stjórnun mannauðs varða og  fyrirkomulagið í ár verður blanda af fræðilegri og hagnýtri umræðu um mannauðsmál frá innlendum og erlendum sérfræðingum.
 
Starsafl er mikilvægur bakhjarl mannauðs í fyrirtækjum og framlag í formi styrkja getur oft skipt sköpum þegar horft er til framtíðar og lagðar línur í fræðslu- og mannauðsmálum.  Það fer því vel að Starfsafl kynni starfsemi sína á þessum degi.  Viðburðurinn fer fram í Hörpu, föstudaginn 28. október og eru áhugasamir boðnir velkomnir í bás nr. 24.