Afgreiddar styrkumsóknir í maí

Maí var nokkuð hlýr og sólríkur og kallaði fram væntingar um gott sumar. Við sjáum hvað setur með sumarið og  veðrið en vonum það besta. 

Hjá Starfsafli var í nógu að snúast sem endranær.  Ársfundur var í byrjun mánaðarins og umsóknir berast  jafnt og þétt alla daga ársins, sama hvernig veðrið er og þannig viljum við hafa það.

Greiddar voru út tæplega fjórar miljónir í maímánuði til 16 fyrirtækja. Hæsta styrkupphæð var kr. 418.574,- og sú lægsta kr.12.000,-.  Fjöldi afgreiddra umsókna voru alls 24 talsins.

Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá mikla aukningu í nýjum fyrirtækjum sem nýta sér sjóðinn, en alls 5 fyrirtæki voru að sækja um í fyrsta sinn. Í því samhengi er á það bent að fyrirtæki geta fengið allt að þrjár milljónir í styrk á ári, burtséð frá stærð fyrirtækis.  Nánar má lesa um reglur Starfsafls hér 

Þau námskeið sem styrkt voru eru eftirfarandi:

Dyravarðanámskeið

Námskeið atvinnubílstjóra

Sala og þjónusta

Samskipti og liðsheild

Sérsniðið fisknámskeið

Stjórnendaþjálfun

Tölvunámskeið

Vinnuvélanámskeið

Öryggisnámskeið

Í styrkjum til einstaklinga voru greiddar um 12.7 milljónir króna.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls. Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.