Securitas fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Securitas hf.

Securitas var stofnað árið 1979 og telur í dag um 500 starfsmenn sem  þjónusta  yfir 20.000 viðskiptavini. Aðalstarfsstöð fyrirtækisins er í Reykjavík og útbú á Reykjanesi, Akureyri, Austurlandi, Selfossi og í Borgarnesi.

Á vefsíðu fyrirtækisins segir að Securitas sé leiðandi fyrirtæki sem vinnur forvarnarstarf með það að markmiði að auka öryggi viðskiptavina sinna og koma í veg fyrir að þeir verði fyrir tjóni.

Þjónustuframboð Securitas spannar öll svið mannaðrar gæslu og fjargæslu auk sölu á vörum sem  tengdar eru öryggismálum.

Fyrirtækið fékk viðurkenningu Samtaka atvinnulífsins sem  “Menntasproti ársins 2016”.  Því má segja að fyrirtækið hafi skýra sýn í fræðslumálum og hefur til að mynda verið leiðandi í rafrænni fræðslu fyrir sitt starfsfólk. Með fræðslustjóra að láni er  verið að formfesta enn frekar alla þjálfun starfsfólks og gera enn betur í fræðslumálum. 

Verkefnið nær til á sjötta hundrað starfsmanna um land allt. Að verkefninu koma fjórir sjóðir; Starfsafl sem er leiðandi sjóður, Landsmennt, Rafiðnaðarskólinn (Rafmennt) og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks. 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson hjá RM ráðgjöf.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin að láni af veraldarvefnum