Samstarf Starfsafls, VSFK og MSS

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis í samstarfi við Starfsafl og Miðstöð símenntunar á suðurnesjum hefur frá því í haust boðið upp á  mjög metnaðarfulla fræðsludagskrá fyrir félagsmenn VSFK. Sú fræðsla er styrkt af Starfsafli fyrir félagsmenn VSFK að fullu eða öllu leyti.

Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert með þessu hætti en Efling stéttafélag hefur í samstarfi við Starfsafl verið með sambærilega fræðslu fyrir félagsmenn síðastliðin ár. Sú fræðsla hefur alla jafna verið vel sótt og þar sem suðurnesin eru ört stækkandi atvinnusvæði og aukin fjölgun félagsmanna þar, þótti ástæða til að gefa í hvað fræðslumálin varðar.

Dagskráin er mjög metnaðarfull eins og fyrr segir, en meðal námskeiða sem boðið er upp á eru námsskeið sem fjalla um sjálfstyrkingu, skyndihjálp og starfslok svo fátt eitt sé talið. Þá er þessu til viðbótar boðið upp á starfsengt nám; skrifstofuskólann, sölu, markaðs- og rekstrarnám og menntastoðir. 

Nú er haustönn lokið og hafa væntingar farið langt fram úr vonum. Dagskráin sem hefst eftir áramót er ekki síður áhugaverð og miklar vonir bundnar um framhaldið.

Áhugasamir um þá fræðslu sem er í boði geta haft samband við Miðstöð símenntunar á suðurnesjum eða VSFK  

Almennar upplýsingar um reglur Starfsafl má sjá á vefsíðu Starfsafls, www.starfsafl.is

Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.