Fáar umsóknir í júlímánuð

Júlímánuður er alla jafna frekar rólegur hér hjá Starfsafli hvað umsóknir varðar og í ár var hann einstaklega rólegur. Ein og ein umsókn og stöku fyrirspurn barst sjóðnum á þessum sólríka sumarmánuði.  

Ef litið er nánar á fjölda umsókna þá bárust 9 umsóknir frá 8 fyrirtækjum.  Ein umsókn var vegna Fræðslustjóra að láni en ekki hefur verið hægt að afgreiða hana vegna sumarleyfa. Tveimur umsóknum var hafnað. Eftir stendur að 6 umsóknir voru afgreiddar og var samanlögð styrkfjárhæð þeirra rétt undir einni milljón króna.  

Þau námskeið sem hlutu styrk voru hefðbundin; skyndihjálp, sérhæft tækninámskeið, námskeið atvinnubílstjóra og öryggisnámskeið.

Í styrkjum til einstaklinga voru greiddar um 14.3 milljónir króna.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls. Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.