Ofbeldislausir og öruggir skemmtistaðir

Miðvikudaginn 9. maí síðastliðinn var haldinn kynningarfundur í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á verkefninu Ofbeldislausir og öruggir skemmtistaðir.

Það var í desember 2016 sem Reykjavíkurborg, Samtök ferðaþjónustu (SAF) fyrir hönd skemmtistaða í Reykjavík, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu (LRH) og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) skrifuðu undir samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði í Reykjavík. Samkomulagið miðar að því að bæta samskipti og samstarf milli þessara aðila. Til að sinna þessu verkefni var sett á fót sérstakt teymi sem í eiga sæti fulltrúar Reykjavíkurborgar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, slökkviliðsins og skemmtistaða.

Markmiðið með samkomulaginu er að skemmtistaðir verði ofbeldislausir og öruggir.

Tilefni þessarar kynningar var endurnýjun á fyrra samkomulagi.

Meðal þess sem var kynnt umfram verkefnið var dyravarðanámskeið Mímis Símenntunar og þeir styrkir sem Starfsafl býður til einstaklinga og fyrirtækja. Starfafls styrkir samkvæmt reglum þar um og voru fyrirtæki hvött til að nýta sér sjóðinn. Endurgreiðsla er að jafnaði 75% af reikningi og nær til félagsmanna Eflingar.  Í því felst að sæki félagsmaður Eflingar dyravarðanámskeið hjá Mími Símenntun þá getur fyrirtækið sótt um endurgreiðslu, allt að 75% af reikningi, svo fremi sem fyrirtækið er greiðandi reiknings. 

Að kynningum loknum var undirskrift borgarstjóra, lögreglustjóra, slökkviliðsstjóra og framkvæmdastjóra SAF á samkomulagi sem er meginþáttur þessa verkefnis. Þá var forsvarsmönnum skemmtistaða boðið að skrifa undir samstarfssamning og voru fulltrúar 10 skemmtistaða sem það gerðu.

Myndirnar tala sínu máli og eru frá kynningarfundinum.