Morgunfundir Starfsafls í fréttablaði Eflingar

Í nýjasta fréttablaði Eflingar er að finna umfjöllun um morgunfundi Starfsafls.  Umfjöllunin er hér birt í heild sinni en á það er bent að margt áhugavert er til umfjöllunar í blaðinu auk þess sem þar er að finna veglega fræðsludagskrá vorannar.  Blaðið er hægt að nálgast á vef Eflingar, www.efling.is

Morgunfundir Starfsafls hafa vakið lukku.

Starfsafl hefur frá sl. vori haldið morgunfundi á skrifstofu Starfsafls undir yfirskriftinni Er fræðsla í bollanum þínum? og hafa fundirnir vakið mikla lukku meðal gesta. Við sem störfum hér hjá Starfsafli getum seint undirstrikað mikilvægi þess að eiga gott samtal við forsvarsmenn fyrirtækjanna sem félagsmenn okkar starfa hjá, til að sjá hvað betur mætti fara í starfsmenntamálum þess hóps, segir Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls.

Sem lið í því bjóðum við þeim sem hafa með mannauðs- og fræðslumál að gera, til okkar í morgunkaffi. Þannig getum við hlustað, tekið samtalið, lært og leitað leiða til að mæta þörfum fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra. Lísbet segir að það sé ekki síður ávinningur fyrir gestina að koma á skrifstofu Starfsafls, kynnast sjóðnum betur, heyra hvað aðrir eru að gera í sínum mannauðs- og fræðslumálum og vonandi mynda gagnlegar tengingar. Um er að ræða fámenna morgunfundi, hámark 6 gesti, enga dagskrá en skemmtilegar umræður ef vel tekst til.

Það hefur verið samdóma álit gesta að fundirnir væru vel lukkaðir, umræður líflegar og upplýsandi fyrir gesti. Boðað var til fyrsta morgunfundarins sl. vor eins og áður segir og var tilgangur þess fundar að taka púlsinn fyrir komandi vetur. Hinsvegar var það mikil ánægja með þann fund að ljóst var að halda yrði fleiri álíka fundi.

Á annan fund Starfsafls mættu fjórir góðir gestir frá fjórum gjörólíkum fyrirtækjum sem eiga það sameiginlegt að vilja hlúa að sínum mannauð með virkri símenntun. Það var margt rætt, t.d. erlendir starfsmenn, fjölbreytni í fræðslu, e-learning eða rafræn fræðsla, fræðslustjóra að láni, endurmenntun atvinnubílstjóra, vinnutíma og facebook@work, svo fátt eitt sé nefnt.

Það er líka svo magnað þegar það verða til tengingar og t.d fræðslustjóri hjá einu fyrirtæki er tilbúinn til að miðla til annars og þannig deila þekkingu og reynslu.

Við ætlum að halda ótrauð áfram á nýju ári og stefnum á fyrsta fundinn um miðjan janúar og höldum áfram svo lengi sem forsvarsmenn fyrirtækjanna og við hér hjá Starfsafli höfum hag af. Það er bara svo gaman þegar það er fræðsla í bollanum, segir Lísbet að lokum.