Metfjöldi umsókna í nóvember

Í þessum næstsíðasta mánuði ársins var slegið met í fjölda umsókna sem og ekki hefur fyrr verið greitt jafn há upphæð í styrki á einum mánuði sé árið skoðað í heild sinni.

Alls bárust sjóðnum 60 umsóknir frá 27 fyrirtækjum og það var verulega ánægjulegt að sjá hversu mörg fyrirtæki voru að sækja um í sjóðinn í fyrsta sinn. Þau fyrirtæki voru 8 talsins en Starfsafl hefur slíðastliðna mánuði verið að vinna markvisst í því að kynna Starfsafl fyrir fyrirtækjum sem eru með starfsmenn innan Eflingar, sjá nánar hér. Það er því útlit fyrir að sú markvissa kynning sé að skila sér.  

Af þeim umsóknum sem nú bárust voru 23 umsóknir vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra, 4 vegna eigin fræðslu og 8 vegna vinnnuvélanámskeiða, svo eitthvað sé nefnt. Á myndinni hér til hliðar má sjá nánari skiptingu. 

Heildarstyrkfjárhæð til fyrirtækja þennan mánuðinn var rétt undir 7 milljónum króna sem er töluvert hærra en aðra mánuði ársins. 

Sé litið til styrkja til einstaklinga þá var veruleg aukning í greiðslu styrkja til félagsmanna í VSFK en þar voru greiddar út rúmar 6 milljónir króna. Samanlagt voru greiddar um 20 milljónir í styrki til einstaklinga í nóvember.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls.