Lögbundin fræðsla og áskoranir atvinnulífsins

Atvinnulífið og vinnuumhverfið breytist hratt og þörfin á að þróa færni og getu vinnuaflsins til að bregðast við er mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Fjárfesting í þjálfun og þróun er lykillinn að því að takast á við hindranir og skort á þekkingu og færni innan vinnustaða, hvort heldur um stofnanir eða fyrirtæki er að ræða.

Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi umræðunnar um fjórðu iðnbyltinguna og mikilvægi þess að búa starfsfólk undir breytingar á störfum. Markaðsforskot í dag snýst um færni og þekkingu starfsfólks. Það er því mikilvægt að sofna ekki á verðinum.

Ef litið er til Bretlands má sjá  vísbendingar um að atvinnurekendur séu að fjárfesta minna í þjálfun og fræðslu starfsfólks en gert var fyrir 20 árum.  Í því samhengi er meðal annars bent á að sá tími  sem hver starfsmaður ver í fræðslu á ári hefur dregist töluvert saman, eða  um 6,3% á hvern starfsmann og í krónum talið er um 23% lækkun að ræða.  Það sem er athyglivert og sannarlega áhyggjuefni er að sú fræðsla sem er sótt er annað hvort lögbundin, snertir þættir sem snúa að heilsu og öryggi og annað það sem getur verið nauðsynlegt fyrir rekstrarhæfi fyrirtækisins eða snýr að almennri nýliðafræðslu.  Það má ekki draga úr vægi þessa eða mikilvægi en það smá sannarlega hafa af því áhyggjur hvort verið sé að mæta hæfniþörf starfsfólks og búa það undir breytingar á störfum þess.

Frá því að Starfsafl tók til starfa hefur verið stigvaxandi vöxtur í fjölda umsókna ár frá ári og með tilkomu Áttarinnar, sameiginlegrar vefgáttar fræðslusjóða, hefur fjöldi umsókna margfaldast.  Hinsvegar er það áhyggjuefni að hluti af þeim vexti sem á sér stað, er eins og í Bretlandi, vegna lögbundinnar fræðslu, fræðslu sem hefur með rekstrarhæfi að gera  eða nýliðafræðslu.

Á árinu 2015 tók gildi breyting á umferðarlögum sem fól í sér kröfu um endurmenntun ökumanna stórra ökutækja. Samkvæmt breytingunni skyldu ökumenn sækja sér 35 stunda endurmenntun á fimm ára fresti.  Sú lagasetning hefur haft þau áhrif að hátt hlutfall umsókna í sjóðinn er vegna námskeiða atvinnubílstjóra og þá einna helst vegna áðurnefndarar endurmenntunar.

Árið 2018 var fjórðungur þess fjármagns sem fór í styrki  vegna námskeiða atvinnubílstjóra. Þar  af voru 88% styrkja til atvinnubílstjóra vegna lögbundinnar endurmenntunar. 

Það er hætta á því að atvinnurekendur sem þurfa að fjárfesta í lögbundinni fræðslu láti þar við sitja, enda það eitt og sér oft  flókið og kostnaðarsamt, og fjárfesti ekki frekar í sínu starfsfólki.  

Starfsafl er sannarlega sá sjóður sem finnur mest fyrir áhrifum af þeirri lagasetningu sem tekur til endurmenntunar en því  samhliða er gott að vita að sjóðurinn geti verið það bakland sem fyrirtækin og þeir einstaklingar sem þar starfa þurfa þegar kemur að endurmenntuninni. 

Þetta dæmi er aðeins til að varpa ljósi á þær áskoranir sem atvinnulífið stendur frammi fyrir en hægt er að draga upp álíka birtingarmyndir vegna styrkja sem hafa með aðra þætti að gera sem eru nauðsynlegir í núinu en taka ekki á þeim verkefnum sem framtíðin færir atvinnulífinu.

Ef litið er til nýliðafræðslu þá heldur Starfsafl ekki utan um tölur um slíka fræðslu  en vitað er að  styrkir vegna eigin fræðslu eru oftar en ekki vegna nýliðafræðslu  Á síðasta ári voru um 7% styrkja í krónum talið vegna nýliðaþjálfunar. Því verður ekki neitað að nýliðaþjálfun er gríðarlega mikilvæg og má aldrei vanmeta slíka fræðslu. Þar má ekki láta staðar numið heldur verður áframhaldandi fræðsla að eiga sér stað. 

Að því sögðu hvetur Starfsafl fyrirtæki til að nýta sér áunninn rétt hjá sjóðnum, horfa til framtíðar og fjárfesta í sínu starfsfólki umfram það sem er nauðsynlegt til að viðhalda rekstrarhæfi.  Markaðsforskot á að vera leiðarstefið.

Lísbet Einarsdóttir, Framkvæmdastjóri Starfsafls tók saman. 

Vísanir í stöðu mála í Bretlandi eru teknar úr skýrslu CIPD; Adressing employer underinvestment in training. The case for broader training levy. July 2019.