Eigin fræðsla hjá Kynnisferðum styrkt

Það er alltaf ánægjulegt þegar ný fyrirtæki bætast í hóp þeirra sem eru með samning við Starfsafl um eigin fræðslu. Kynnisferðir voru að bætast í þann góða hóp, en þar er öflugt fræðslustarf og mikill metnaður lagður í starfsþróun starfsfólks. Atvinnubílstjórar eru stór hópur starfsmanna og til þeirra gerðar þær kröfur að þeir fari í gegnum ákveðna endurmenntun á 5 ára fresti sbr. lög þar um. Fyrir fyrirtækið getur það verið flókið í framkvæmd og kostnaðarsamt og því hagur í því að geta sótt fjárstyrk til Starfsafls, en samningur um eigin fræðslu tekur m.a. mið af því en fyrirtækið er viðurkenndur fræðsluaðili af Samgöngustofu.

Í dag eru hátt í 20 fyrirtæki með samning um eigin fræðslu sem eru þá endurnýjaðir alla jafna á 3ja mánaða fresti sem þó getur verið breytilegt eftir umfangi og stærð fyrirtækis. Skipulag fræðslu er ekki með sama hætti á milli fyrirtækja og leitast Starfsafl við að mæta þörfum fyrirtækjanna í því samhengi með sveigjanleika í gerð samninga. Öll umsýsla fer fram rafrænt og í gegnum vefgáttina www.atttin.is

Fyrirtæki geta sótt um styrki til að kosta eigin fræðslu sem fram fer innan fyrirtækjanna með eigin leiðbeinendum. Reglurnar fela í sér að heimilt er að veita styrki samkvæmt tilteknum verklagsreglum og í flestum tilfellum er um að ræða sérhæfða fræðslu sem ekki er hægt að kaupa frá sjálfstæðum fræðsluaðilum. Má þar nefna þjálfun samkvæmt skilgreindum þjálfunarferlum almennra starfsmanna t.d. í þjónustu og framleiðslu sérhæfðra vara.

Gerður er sérstakur samningur við fyrirtækið um styrkveitingarnar, Styrkur miðast eingöngu við þá starfsmenn fyrirtækjanna sem eru félagsmenn stéttarfélaga sem aðild eiga að sjóðunum. Styrkur greiðist að jafnaði út að loknu fræðslutímabili sem tilgreint er í samningi. Samningur er gerður fyrirfram (áður en fræðsla hefst).

Styrkur miðast við hverja kennda klukkustund starfstengds námskeiðs, hámark 7.500 kr pr námskeiðsklukkustund og hafa verður í huga að ekki eru styrktar námskeiðsstundir sem hafa færri en 5 námsmenn. Þá eru námsgögn styrkut um allt að 350 kr. pr. nemanda.  Hér má lesa ítarlega um reglur vegna eigin fræðslu

Fyrirtæki með starfsfólk innan Flóabandalagsins geta sótt til sjóðsins og hvetur Starfsafl fyrirtæki til að hafa samband og kanna hvaða leiðir eru mögulegar. Þá má finna nánari upplýsingar á vef Starfsafls www.starfsafl.is eða í síma 5107550