Kaffismiðja Íslands fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Kaffismiðju Íslands ehf.

Fyrirtækið rekur tvö kaffihús undir nafninu Reykjavík Roasters og það þriðja mun opna innan skamms.

Á vefsíðu fyrirtækisins segir að upprunalega kaffihúsið hafi opnaði í lok árs 2008 undir nafninu Kaffismiðja Íslands. Á vordögum árið 2013 gekkst það undir endurnýjun lífdaga og fékk nafnið Reykjavík Roasters. Annað kaffihúsið opnaði í ágúst árið 2015 í Brautarholti 2. Þar er metnaðarfullur bruggbar þar sem bruggað er kaffi og te af miklum móð fyrir gesti og gangandi. Einblínt er á uppáhellingu uppá gamla mátann, en sú áhersla skapar fullkomið kaffihúsaandrúmsloft og notalega stemningu sem fylgir hverjum bolla. Hjá fyrirtækinu starfa um 20 starfsmenn.

Tveir sjóðir koma að verkefninu, Starfsafl og SVS.  Ráðgjafi verkefnisins er Eva Þórðardóttir hjá Effect ehf.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550