Jólakveðja til þín og þinna

Það er komið að því. Við erum alveg að detta í jólin, áramót eru handan við hornið og nýtt ár með nýjum ævintýrum innan seilingar.

Árið sem við senn kveðjum kom sannarlega á óvart og ekkert varð eins og áætlað var. Við ætluðum til dæmis að fagna 20 ára afmæli fræðslusjóðanna með veglegri ráðstefnu með afmælisívafi á Grand hóteli, en það var blásið af og bíður betri tíma.

Hópur um stafræna fræðslu var keyrður í gang í upphafi árs en náði aðeins að hittast einu sinni og ræða framtíð starfrænnar fræðslu og möguleikana þar. Það var ekki í huga nokkurs manns sem sat á þeim fundi að stafræn fræðsla færi á það flug sem síðar varð á árinu – fimm ára planið varð að engu og stafræn fræðsla varð aðalmálið hér og nú.

Starfsafl hækkaði endurgreiðsluhlutfallið úr 75% í 90% og saman hrintu sjóðirnir af stað átaki til að vekja athygli á því að samkomubann þýddi alls ekki fræðslubann og mikill kippur varð á umsóknum fyrirtækja. Vel gert.

Starfsafl tók þátt í ýmsum verkefnum, til að mynda gerð fræðsluefnis fyrir ferðaþjónustuna og nám fyrir einstaklinga; annarsvegar nám sem ber yfirskriftina “Vertu betri í tækni / starfsmaður 21. aldarinnar” og hinsvegar námskeiðin “Aftur til vinnu” en bæði þessi námskeið eru kennd hjá Mími Símenntun og að fullu styrkt fyrir félagsmenn.

Þá sótti fjöldi einstaklinga nám af ýmsu tagi og fjöldi fyrirtækja fjárfesti í sínu starfsfólki en samanlagt greiddi sjóðurinn þetta árið 291 milljón í styrki til einstaklinga og fyrirtækja. Þar af voru 254 milljónir í styrki til einstaklinga og 37 milljónir til fyrirtækja. Við getum því horft um öxl og verið nokkuð sátt. Fræðsla og starfsþróun tók alveg sitt pláss á árinu þrátt fyrir þá örðugleika sem kollsteyptu nánast öllu.

Við minnum á að 90% endurgreiðsla styrkja verður áfram á nýju ári, eða til 1. maí 2021 og því hvetjum við enn sem fyrr, og aldrei meir en nú, fyrirtæki og einstaklinga til að fjárfesta í því sem mestu skiptir, mannauðnum.

Að því sögðu langar okkur hér hjá Starfsafli að óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Myndin er fengin hér