Hótel Aurora fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Hótel Aurora.  

Starfsmenn fyrirtækisins eru tæplega þrjátíu talsins og er verkefnið að fullu styrkt af Starfsafli.

Verkefnið felur í sér að Starfsafl leggur til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Hótel Aurora er þriggja stjörnu hótel á Keflavíkurflugvelli, aðeins 100 metra frá flugstöð Leifs Eiríkssonar. Herbergi eru 72 talsins auk þess sem veitingastaður er á hótelinu. Verið er að byggja við hótelið þar sem m.a. verður gert ráð fyrir töluverðum fjölda herbergja til viðbótar og aðstöðu til funda- og ráðstefnuhalds. Markmið fyrirtækisins eru skýr og stefna stjórnenda fyrirtækisins að efla starfsfólk enn frekar svo það sé í stakk búið til að sinna daglegum verkefnum og geti tekið virkan þátt í framþróun fyrirtækisins.

Ráðgjafi verkefnisins er Miðstöð símenntunar á suðurnesjum.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins.