Gæðabakstur fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við fyrirtækið Gæðabakstur ehf.

Starfsmenn fyrirtækisins eru 165 talsins og að verkefninu koma til viðbótar við Starfsafl; SFS, Samband stjórnendafélaga, Landsmennt og Iðan.

Heildarupphæð styrks er 810.000,- krónur og þar af er hlutur Starfsafls um 400.000,- kr.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Á vefsíðu fyrirtækisins segir að fyrirtækið hafi verið stofnað 1993 sem sameignarfélag af Vilhjálmi Þorlákssyni sem er enn þann dag í dag framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Vilhjálmur byrjaði að framleiða kleinur og ameríska kleinuhringi og sá þá um bæði baksturinn og útkeyrslu á vörunum. Vinnudagarnir voru því margir hverjir  mjög langir.

Í byrjun var framleiðslan í 68 m2 húsnæði. Þegar vinsældir varanna fór að aukast bætti hann við starfsmönnum og eftir það fóru hjólin að snúast og framleiðslan jókst hratt. Vöruúrvalið jókst smátt og smátt eftir því sem árin liðu og fyrirtæki í skyldum rekstri eins og t.d. Ömmubakstur sameinaðist Gæðabakstri. Árið 2010 sameinaði fyrirtækið starfsemi sína að Lynghálsi 7 í Reykjavík, þar sem öll framleiðslan fer fram.

Þá segir jafnframt á vefsíðunni að fyrirtækið er í hópi framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi 2012-2017 og er á meðal 1% fyrirtækja sem standast þær kröfur. Starfsfólk fyrirtækisins á allan heiður af þessari viðurkenningu og að fyrirtækið muni halda áfram að styðja við bakið á sínu góða fólki.

Að taka inn verkefnið Fræðslustjóri að láni er sannarlega skref í rétta átt og undirstrikar metnað fyrirtækisins.

Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson, en hann hefur komið að fjölda ráðgjafaverkefna fyrir sjóðina

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins.