Mikill fjöldi umsókna í upphafi árs

Nú þegar liðnar eru tvær vikur af nýju ári er ljóst að fræðslu- og starfsmenntamál fyrirtækja eru í blóma sem fyrr og  fyrirtæki vel meðvituð um þá styrki sem hægt er að sækja um til Starfsafls. Í dag hafa borist 15 umsóknir og nemur samanlögð styrkupphæð á aðra milljón króna en aðeins ein umsókn barst sjóðnum á fyrstu tveimur vikum ársins 2016.  Það verður því fróðlegt að sjá hver þróunin verður í fjölda styrkja á ársgrunvelli ef tekið er mið af þessum krafti í fjölda umsókna í ársbyrjun.
 
Þau námskeið sem sótt er um styrki vegna eru af öllum toga, þar með talið vegna ensku- og stjórnendanáms auk ADR réttinda en sérstaka athygli vekur að þrjár styrkbeiðnir eru vegna eigin fræðslu fyrirtækja.  Í því samhengi má einnig benda á að undir lok síðasta árs tók Starfsafl upp á þeirri nýjun að styrkja rafræna fræðslu fyrirtækja.  Fyrirtæki hafa því tök á því að setja saman fræðsludagskrá sem bæði tekur til rafrænnar og hefðbundinnar fræðslu, hvort heldur er á vinnustað eða utan, og fengið endurgreiðslu sbr. þær reglur sem um það gilda. 
 
Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sína styrkmöguleika eru hvött til að hafa samband við skrifstofu Starfsafls, hvort heldur er með síma eða tölvupósti.