Er þitt fyrirtæki með á nótunum ?

Nú þegar þriðjungur ársins er svo gott sem liðinn og farið er að hylla til vorsins  hefur Starfsafl greitt rúmar 12 milljónir króna í styrki tll fyrirtækja vegna fræðslu starfsfólks.

Það er mikið um að sömu fyrirtækin sæki um en lauslega má áætla að það séu um 90% fyrirtækja. Það er því alla jafna fagnað þegar nýtt fyrirtæki sækir um, jafnvel fyrirtæki sem hefur verið lengi í rekstri en ekki vitað um rétt fyrirtækisins hjá sjóðnum.

Það er ekki síður gaman að tala við starfsmann fyrirtækis sem tekur skrefið og leitar upplýsinga og segja að fyrirtækið sem viðkomandi starfi hjá eigi rétt á endurgreiðslu. Það gerist alltaf reglulega og nú síðast var það til dæmis lítið verktakafyrirtæki sem fékk greidda eina milljón króna og var það vegna reikninga sem voru gefnir út fyrir allt að 12 mánuðum. Væntanlega og vonandi hefur þessum starfsmanni verið þakkað vel unnin störf. 

Önnur saga segir af framkvæmdastjóra vertakafyrirtækis sem kom í kaffispjall og gekk út sexhundruð þúsund krónum ríkari. Hann vissi ekki fyrir fundinn að fyrirtækið hans gæti fengið 75% endurgreiðslu vegna tveggja starfsmanna sem fyrirtækið hafði styrkt til meiraprófs. Hann var að vonum mjög ánægður.

Þær eru margar svona sögurnar og það ánægjulegasta er þegar fyrirtæki  átta sig á umhverfinu og hversu einfalt þetta er, þá halda þessi sömu fyrirtæki áfram, leggja jafnvel enn meira í fræðslu sinna starfsmanna, vitandi að Starfsafl er þeirra bakhjarl. Þá er tilganginum náð.

Dæmi um slík fyrirtæki er hótelkeðja sem hefur fengið rétt undir tveimur miljónum króna í styrk það sem af er þessu ári vegna  fræðslu starfsfólks.  Þá var verið að greiða rétt undir tveimur milljónum til fyrirtækis vegna stafrænnar fræðslu starfsfólks.  Í báðum tilfellum er um að ræða fyrirtæki sem nýta sér rétt sinn á hverju ári og sitja aldrei uppi með reikninga heldur senda inn jafnóðum og fræðslunni er lokið og gengið hefur verið frá greiðslu við fræðsluaðilann. 

Fræðsla starfsfólks er gríðarlega mikilvæg. Fjárfesting í þjálfun og þróun er lykillinn að því að takast á við hindranir og skort á þekkingu og færni innan vinnustaða. Það er ekki síður mikilvægt í ljósi umræðunnar um fjórðu iðnbyltinguna og mikilvægi þess að búa starfsfólk undir breytingar á störfum. Markaðsforskot í dag snýst um færni og þekkingu starfsfólks. Það er því mikilvægt að sofna ekki á verðinum.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá geta öll fyrirtæki á almenna markaðnum með starfsfólk í Eflingu, VSFK og Verkalýðsfélaginu Hlíf í Hafnarfirði sótt um styrk til sjóðsins. Hámarksgreiðsla á ári er 3 milljónir króna, óháð stærð og fjölda starfsfólks.  Þá er á það bent að til 15 júní er endurgreiðsla allt að 90%, sjá hér.

Öll starfstengd fræðsla, hvort heldur sem hún er á gólfi eða stafræn, er styrkhæf. Reglur sjóðsins má lesa hér.

Er þitt fyrirtæki búið að sækja um ?

Myndin er fengin hér